19.3.2007

Alþingi (133. löggjafarþingi) var frestað frá 18. mars 2007 til loka kjörtímabils 12. maí 2007

Þingið var að störfum frá 2. október til 9. desember 2006 og frá 15. janúar til 18. mars 2007. Þingfundir voru samtals 96 og stóðu alls í 544 klukkustundir og 32 mínútur. Lengsti þingfundurinn stóð í rúmlega 16 klst. og lengsta umræðan var um frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. sem stóð í tæpar 70 klst. Þingfundadagar voru alls 72.
 

Af 212 frumvörpum urðu alls 114 að lögum, 2 voru kölluð aftur, 2 var vísað til ríkisstjórnarinnar og 94 voru ekki útrædd. Af 109 þingsályktunartillögum voru alls 30 tillögur samþykktar sem ályktanir Alþingis, 3 var vísað til ríkisstjórnarinnar og 76 voru ekki útræddar. Skriflegar skýrslur voru samtals 34 (þar af voru beiðnir um skýrslur frá ráðherrum 4 og bárust skýrslur við öllum). Fyrirspurnir á þingskjölum voru samtals 355. Munnlegar fyrirspurnir voru 194 og var 168 svarað. Skriflegar fyrirspurnir voru 158 og var 155 svarað.

Þingmál til meðferðar í þinginu voru alls 710. Tala prentaðra þingskjala var 1416. Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru 34, munnlegar skýrslur ráðherra voru 3 og aðrar munnlegar skýrslur 2. Umræður utan dagskrár voru 34. Á þinginu fóru 8 dagar í nefndastörf eingöngu. Fundir þingnefnda voru 353 og stóðu þeir í 470 klst. Gestir sem komu á fundi nefnda voru um 1500. Af 202 þingmálum sem var vísað til fastanefnda voru 147 afgreidd. Rúmlega 1600 erindi bárust þingnefndum og að auki barst fjárlaganefnd 900 erindi.